Erlent

Leit lokið í flaki Air France þotunnar

Búið er að ljúka leit að líkunum í flaki Air France þotunnar sem fórst í flugi milli Rio de Janeiro og Parísar fyrir tveimur árum síðan.

Alls tókst að ná líkum 104 farþega af hafbotninum undan vesturströnd Brasilíu þar sem flak þotunnar fannst á nær 4.000 metra dýpi.

Samkvæmt frétt um málið á BBC voru fyrstu líkin sem komu upp á yfirborðið enn föst í sætisólum sínum. Það reyndist hinsvegar ómögulegt að ná 70 af líkunum upp af hafsbotninum.

Alls voru 228 farþegar um borð þegar þotan hrapaði og fórust þeir allir. Fyrstu dagana eftir slysið fundust lík um 50 þeirra á floti á slysstað. Líkin sem fundust voru flutt til Toulouse í Frakklandi þar sem verið er að vinna við að bera kennsl á þau.

Auk þess að bjarga líkunum fundust svörtu kassarnir í þotunni. Samkvæmt þeim voru það vandamál með hraðamæla þotunnar sem ollu því að hún missti hraða og hæð og flugmönnum tókst ekki að koma í veg fyrir hrapið vegna þessara vandamála.

Reiknað er með að frönsk flugmálayfirvöld gefi út skýrslu um þetta flugslys í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×