Erlent

Bréf skrifað af Adolf Hitler um "gyðingavandamálið" komið í ljós

Simon Wisenthal stofnunin í Los Angeles hefur komist yfir bréf frá árinu 1919 sem mun vera það eina sem Adolf Hitler skráði sjálfur um hugmyndir sínar um framtíð gyðinga.

Bréf þetta er undirritað af Hitler sjálfum og mun vera frumrit þess. Árið 1919 starfaði Hitler fyrir leyniþjónustu þýska hersins. Hann var beðinn um að skrá niður svar hersins við spurningunni um "gyðingavandamálið".

Í svarinu sem er fjórar vélritaðar síður er að finna ýmsar grunnhugmyndir að helförinni gegn Gyðingum fyrir og meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð. Hitler segir meðal annars að lokamarkmiðið sé að losna alfarið við Gyðingana sem hann kallar berkla á þýsku þjóðinni.

Athyglisvert þykir að Hitler skrifaði bréfið skömmu áður en hann hélt á fyrsta fund sinn hjá Verkamannaflokknum sem hann síðar breytti í Nasistaflokkinn.

Þeir sagnfræðingar sem kynnt hafa sér sögu Þriðja ríkisins vita af þessu bréfi sem gengur undir nafninu Gemlich bréfið í höfuðið á þeim sem bað um svar hersins. Afrit af því er til í ríkisskjalasafninu í Munchen.

Talið er að frumritið hafi komist í hendurnar á bandarískum hermanni úr skjalasafninu sem til varð í Nuremberg réttarhöldunum árið 1945. Það verður nú til sýnis á safni í Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×