Erlent

Allir æfir út í alla

Óli Tynes skrifar
Banvænt eða bráðhollt?
Banvænt eða bráðhollt?
Landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsins koma saman til neyðarfundar í Lúxemborg í dag til þess að reyna að finna lausn á þeim vanda sem hrjáir grænmetisframleiðendur -og neytendur. Tuttugu og tveir hafa látist og yfir 2000 veikst alvarlega síðan nýtt afbrigði af E-Coli bakteríu fannst í grænmeti. Það er dálítið sérstakt við þennan faraldur að ekki hefur enn tekist að finna uppruna hans, en hann hófst snemma í maí.



Þjóðverjar voru að vísu fljótir til og sögðu í upphafi að bakterían væri í agúrkum frá Spáni. Það varð til þess að grænmetisframleiðsla á Spáni hrundi og framleiðendur þar hafa tapað um 40 milljörðum króna á viku. Rannsókn leiddi í ljós að Spánverjar voru alsaklausir og böndin beindust að bóndabæjum í norðanverðu Þýskalandi. Það reyndist heldur ekki rétt.



Þá var Rússum nóg boðið og þeir bönnuðu allan innflutning á ávöxtum og grænmeti frá Evrópu. Við það urðu menn í Evrópusambandinu æfir og sögðu það alltof harkalegt. Spánverjar eru einnig æfir og heimta bæði afsökunarbeiðni og bætur frá Þýskalandi.



Í gær tilgreindu svo Þjóðverjar bóndabæ sem framleiðir baunaspírur. Það hefur svo líka verið dregið til baka og bóndinn er að vonum æfur yfir þeim álitshnekki sem hann hefur orðið fyrir. Það eru því allir æfir út í alla, en ekkert gengur að rekja uppruna eitrunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×