Erlent

Thriller jakkinn á uppboð

Heimsfrægi jakkinn rauði og svarti, sem poppgoðið Michael Jackson klæddist í tónlistarmyndbandinu við lagið "Thriller", verður boðinn upp á svokallaðri tónlistargoðasýningu í Beverly Hills þann 25. og 26. júní næstkomandi. Auk jakkans verða boðnir upp minjagripir frá Bítlunum, Madonnu, Lady Gaga, Frank Sinatra, Elvis og Justin Bieber svo dæmi séu nefnd.

Thriller-jakkinn, sem sló svo rækilega í gegn á sjónvarpsskjám víðsvegar um heiminn, varð svo fyrirmynd seinni búninga Jacksons. Jakkinn er gerður úr kálfaleðri og innan á fóðrinu er sögð vera áletrun frá konungi poppsins en flíkin er metin á bilinu 20-45 milljónir króna.

Hluti ágóðans af sölu jakkans mun renna til Shambala verndarsvæðisins, sem er nú heimili tígrisdýranna hans Jacksons, "Thriller" og "Shabu".

Michael Jackson varð bráðkvaddur þann 25. júní 2009 en læknir hans, Conrad Murray, hefur verið ákærður fyrir manndráp fyrir að yfirgefa Jackson eftir að hafa gefið honum afar sterkt svefnlyf. Murray ber af sér sakir og segist aðeins hafa gefið söngvaranum afar smáan skammt af lyfinu en réttað verður yfir lækninum í september.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá tónlistarmyndbandið fræga sem að margra mati sigraði heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×