Erlent

Strauss-Kahn segist saklaus

MYND/AP
Dominique Strauss-Kahn lýsti sig í dag saklausan af ákærum sem bornar hafa verið á hann en hann er sagður hafa nauðgað þjónustustúlku á hóteli í New York. Réttarhöldin Strauss-Kahn, sem er fyrrum forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hófust í New York í dag. Hann mætti til dómshússins í fylgd eiginkonu sinnar Anne Sinclair sem er sjónvarpsfréttakona í Frakklandi. Hópur starfsmanna hótelsins þar sem nauðgunin á að hafa átt sér stað mættu á staðinn og hrópuðu að Strauss-Kahn þegar hann gekk inn í salinn. Með þessu vildu þau sýna þjónustustúlkunni stuðning sinn í verki.

Alls er ákæran gegn Strauss-Kahn í sjö liðum. Samkvæmt frétt um málið á CNN hefur einn lögmanna Strauss-Kahn sent dómara málsins bréf þar sem hann kvartar undan því að búið sé að skaða rétt Strauss-Kahn til réttlátrar dómsmeðferðar þar sem búið sé að opinbera gögn í málinu áður en lögmenn hans hafa fengið þau í hendurnar.

Strauss-Kahn dvelur nú í stofufangelsi umkringdur öryggisvörðum í lúxusíbúð í Tribeca hverfinu í New York. Honum var sleppt úr Rikers Island fangelsinu í síðasta mánuði gegn 6 milljón dollara tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×