Innlent

Þorvaldseyri: Bestu túnin þar sem mesta askan féll

Þorvaldeyri undir Eyjafjöllum
Þorvaldeyri undir Eyjafjöllum
Heyskapur hófst undir Eyjafjöllum í dag, viku síðar en í fyrra. Bóndinn á Þorvaldseyri segir öskuna spara sér mikinn áburð og bestu túnin séu þar sem mesta askan féll.

Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum var á kafi í heyskap síðdegis í dag. Hann segir grassprettuna hafa verið hæga af stað.

„Það hefur auðvitað verið kalt hérna eins og annarss staðar, en núna síðustu daga þá hefur lagast mikið og verið svolítil úrkoma sem hefur gjörbreytt ástandinu," segir Ólafur.

Hann segist hafa verið hræddur um að hið mikla magn ösku sem féll á túnin eftir gosið í Eyjafjallajökli í fyrra myndi hafa slæm áhrif á grassprettuna.

„En það er greinilegt að þetta hefur jákvæð áhrif til lengri tíma og við erum að sjá hérna mjög fallegt gras sem einungis er borinn hálfur skammtur af áburði miðað við undanfarin ár," segir hann. „Það er mikill sparnaður í því og þrátt fyrir kuldatíð í vor þá er þetta bara á ágætum tíma núna um miðjan júní að slá þetta ágæta gras."

Um fimm sentimetra þykkt öskulag hefur sest ofan í grassvörðinn á túninu fyrir utan Þorvaldseyri. Aksna umlykur rætur plöntunnar en Ólafur segir ræturnar þó vera í góðu lagi, laukinn öflugann og mikinn blaðvöxt. Hins vegar má sjá aðeins fjólublátt í toppinn vegna kuldans í vor.

Hann segir öskuna mögulega geyma í sér vatn og gefa frá sér raka í þurrkum sem hefur greinilega góð áhrif. Hann er bjartsýnn um framhaldið.

„Það er ástæða til þess að vera það eftir það sem á undan hefur gengið og það skuli vera hérna svona góð spretta og bestu túnin eru þar sem að mesta askan féll í fyrra,“ segir Ólafur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×