Innlent

Ræðu biskups beðið

Mynd/GVA
Mikil eftirvænting ríkir eftir ræðu Karls Sigurbjörnssonar, biskups, á kirkjuþingi á morgun þegar hann tjáir sig í fyrsta sinn um skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar þar sem farið er fyrir biskupsmálið svokallaða og viðbrögð kirkjunnar tilgreind. Viðmælendur fréttastofu úr hópi presta segja að búast megi við uppgjöri.

Kirkjuþing ákvað í fyrrahaust að skipa rannsóknarnefnd til að fjalla um málið. Nefndin kynnti skýrslu sína á föstudaginn en hún telur að Karli Sigurbjörnssyni og öðrum vígðum þjónum kirkjunnar hafi orðið á mistök í starfi þegar ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi komu fram árin 1996 og 2009. Ýmislegt hafi farið úrskeiðis og fagleg og vönduð vinnubrögð hafi skort.

Biskupsritari víkur

Kirkjuþing kemur saman á morgun en þar eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands eru með málfrelsi og tillögurétt. Einn hinna kjörnu fulltrúa, séra Baldur Kristjánsson, hefur sagt frá þinginu. Baldur var biskupsritari Ólafs á sínum tíma.

Boltinn hjá Karli

Sem fyrr segir er búist við uppgjöri eftir ræðu Karls. Margir úr hópi presta vilja bíða eftir og heyra afstöðu Karls áður en þeir tjá sig um málið. Einn þeirra er séra Vigfús Þór Árnason sem vildi ekki tjá sig um innihald skýrslunnar þegar eftir því var leitað á föstudagskvöldið, en gerðar eru athugasemdir við framgöngu hans í biskupsmálinu.

Þá sagði séra Sigríður Guðmarsdóttir boltann vera hjá Karli og öðrum sem fjallað er um í skýrslunni. Af þeim sökum vildi hún ekki segja til um hvort Karl ætti að víkja sem biskup líkt og Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, fórnarlamb séra Ólafs Skúlasonar, hefur kallað eftir.

Karl gerði mistök

Róbert R. Spanó, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir Karl hafa gert mistök í starfi sínu í tvígang. Fyrst árið 1996 þegar hann tók að sér sálgæslu- og sáttahlutverk á milli Sigrúnar Pálínu og Ólafs, þegar hann hafði komið að málinu persónulega daginn áður á vettvangi kirkjuráðs. Síðan hafi ýmis mistök verið gerð af hálfu kirkjunnar þegar mál Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur kom inn á borð Biskupsstofu í mars árið 2009. Það eru talin ámælisverð vinnubrögð að leysa ekki úr máli Guðrúnar Ebbu heldur láta hana bíða í rúmt ár eftir viðbrögðum. Það sé ótvíræð niðurstaða nefndarinnar að Karl hafi sem biskup og forseti kirkjuráðs borið ábyrgð á þeim mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×