Erlent

Aðstoðaði Ísbarónessuna sem reyndist vera eftirlýstur morðingi

SB skrifar
Ísbarónessan bíður nú réttarhalda en hún heldur því fram að fórnarlömb hennar hafi báðir misnotað hana á sál og líkama. Mynd/AFP
Ísbarónessan bíður nú réttarhalda en hún heldur því fram að fórnarlömb hennar hafi báðir misnotað hana á sál og líkama. Mynd/AFP
Spænskur götuspilari í Vín komst í hann krappann þegar hann sá aumur á grátandi konu á lestarstöð í Udine á Ítalíu. Hann bauð konunni gistingu en komst ekki að því fyrr en tveim dögum síðar að konan með tárin var eftirlýstur morðingi frá Vín, þekkt undir nafninu Ísbarónessan.

Það voru verkamenn sem sviptu hulunni af ódæðum hinnar 32 ára gömlu Goidsargi Estibaliz, eiganda ísbúðar í Vín. Verkamennirnir fundu lík tveggja karlmanna í kjallaranum undir ísbúðinni, annar var fyrrverandi eiginmaður Goidsargi, og hinn fyrrverandi kærasti. Ísbarónessan, líkt og Goidsargi er kölluð í þýskum fjölmiðlum, hafði skotið báða mennina til bana, bútað sundur líkin og steypt líkamshlutana í kjallaranum.

Goidsargi, sem gengur með barni, komin tvo mánuði á leið, flúði á ótrúlegan hátt frá Vín. Stökk upp í leigubíl og steig ekki út fyrr en hún var komin til Ítalíu. Þar tók saga Ísbarónessunar enn aðra ótrúlega stefnu. Spænskur götuspilari lýsir því hvernig hann sá einmana grátandi konu á lestarstöðinni í Udine. Hún hafi virkað hjálparlaus og einmana og hann hafi spurt hana hvort hún þyrfti á hjálp að halda.

Stuttu síðar var Ísbarónessan komin á heimili götuspilarans Ivan Riu. Í tvo daga hjálpaði hún til við eldamennsku, þvoði þvott og fór með Ivan að versla. En Adam var ekki lengi í Paradís. Af tilviljun sá Ivan mynd af konunni, sem hann hafði tekið upp á sína arma, á fréttasíðu á vefnum. Konan sem hann hafði bjargað hafði drepið tvo fyrrverandi unnusta. Götuspilarinn hringdi undir eins í lögregluna sem kom á staðinn og handtók loksins Goidsargi.

Ísbarónessan bíður nú réttarhalda en hún heldur því fram að mennirnir tveir, fórnarlömb hennar, hafi báðir misnotað hana á sál og líkama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×