Erlent

Flug fellur niður vegna gosösku

Um 55 þúsund ferðamenn eru nú strandaglópar í Ástralíu vegna ástandsins.
Um 55 þúsund ferðamenn eru nú strandaglópar í Ástralíu vegna ástandsins. Mynd/AP
Nánast allt flug liggur niðri í Ástralíu og á Nýja Sjálandi vegna gosösku. Búist er við áframhaldandi röskun á flugi í Eyjaálfu næstu daga. Askan úr sílenska eldfjallinu Puyehue-Cordon Caulle raskar nú flugi í Eyjaálfu annan daginn í röð.

Einhverjar flugvélar fengu í morgun leyfi til að fara á loft í Melbourne, næst stærstu borg Ástralíu, en þar er að létta til. Þá gáfu þarlend yfirvöld ástralska flughernum leyfi til að fljúga í gegnum ösku, þrátt fyrir mikla hættu, til þess að háttsettur stjórnmálamaður frá Tasmaníu kæmist til höfuðborgarinnar Canberra. 55 þúsund ferðamenn eru nú strandaglópar í landinu vegna ástandsins en talið er að röskun verði á flugi í Eyjaálfu næstu daga.

Íbúar Nýja-Sjálands hafa ekki einungis þurft að hafa áhyggjur af öskufalli því tveir jarðskjálftar, upp á 5 á richter, riðu yfir borgina Christchurch með 90 mínútna millibili í morgun. Á mörgum svæðum er rafmagnslaust og símalínur liggja niðri. Íbúar eru sagðir slegnir, en einungis fjórir mánuðir eru liðnir frá því að öflugur skjálfti reið yfir þennan sama stað með þeim afleiðingum að 180 létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×