Erlent

Sýrlensk stúlka reyndist vera bandarískur karlmaður

Tom MacMaster bað lesendur bloggsins afsökunar í gær.
Tom MacMaster bað lesendur bloggsins afsökunar í gær.
Samkynhneigð sýrlensk stúlka, sem vakti mikla athygli fyrir blogg sem hún ritaði frá Damaskus, reyndist í gær vera harðgiftur bandarískur karlmaður.

Frá því fyrsta færsla bloggsins var birt í febrúar, gátu lesendur nálgast þar hugsanir, vangaveltur og myndir af hinni hálf-bandarísku Aminu Abdallah Araf al Omari, sem talaði opinskátt um líf sitt sem samkynhneigð kona í arabalandi, mótmælin í Sýrlandi, og drauma sína um frjálsa þjóð. Henni var hinsvegar rænt síðastliðinn þriðjudag og birti frænka Aminu þá tilkynningu þess efnis á bloggi stúlkunnar.

Fregnir um málið bárust fljótt í erlenda miðla, en ekki leið á löngu áður en víða fóru að vakna efasemdir. Vísbendingar virtust margar benda til þess að Amina væri hreinn uppspuni, og varð grunlaus kona frá London vægast sagt hissa þegar hún sá mynd af sjáfri sér á fréttavef The Guardian en myndin, sem birst hafði á blogginu, átti að vera af Aminu sjálfri.

Maðurinn sem reyndist hafa verið á bak við bloggið, hinn 40 ára gamli Tom MacMaster sem búsettur er í Edinborg, birti afsökunarbeiðni á síðu Aminu í gær þar sem hann sagðist aldrei hafa búist við svona mikilli athygli. Hann sagði að þó svo persónan á bak við skrifin hefði verið uppspuni, þá væru staðreyndirnar sem fram hefðu komið sannar og endurspegluðu ástandið í Sýrlandi réttilega. Hann hefði í gegnum Aminu skapað mikilvæga rödd sem hefði vakið athygli á þeim málefnum sem skipta hann miklu máli.

Blog Aminu má nálgast á slóðinni www.damascusgaygirl.blogspot.com




Fleiri fréttir

Sjá meira


×