Innlent

Karl gerði mistök í máli Guðrúnar Ebbu

Karl Sigurbjörnsson gerði mistök samkvæmt rannsóknarnefndinni.
Karl Sigurbjörnsson gerði mistök samkvæmt rannsóknarnefndinni.
Rannsóknarnefnd Kirkjuþings kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að Karl Sigurbjörnsson biskup hafi orðið á mistök sem forseti kirkjuráðs varðandi úrlausn mála Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur varðandi erindi sem hún sendi í mars 2009 vegna meintra kynferðisbrota föður síns, Ólafs Skúlasonar.

Það er hinsvegar niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að ekki séu forsendur til að fullyrða að Karl Sigurbjörnsson, aðrir starfsmenn biskupsstofu eða kirkjuráðsmenn, hafi með framgöngu sinni gert tilraun til að þagga niður í Guðrúnu Ebbu með því að leitast við að koma í veg fyrir að hún fengi tækifæri til að koma sögu sinni á framfæri á vettvangi kirkjuráðs.

Á hinn bóginn er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að ýmis mistök hafi verið gerð við meðferð erindis hennar. Í fyrsta lagi hafi verið gerð mistök við móttöku erindis Guðrúnar Ebbu í mars 2009 á biskupsstofu, enda hafi það ekki verið skráð með formlegum og venjubundnum hætti.

Í öðru lagi hafi þau mistök verið gerð að erindi Guðrúnar Ebbu hafi aldrei verið svarað formlega af hálfu kirkjuráðs eins og eðlilegt hefði verið. Í þriðja lagi er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að Karl Sigurbjörnsson hafi ekki fært fram fullnægjandi réttlætingarástæður fyrir því að úr málum Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur og Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur skyldi leyst með ólíkum hætti á vettvangi kirkjuráðs.

Svo segir í skýrslunni að ef á annað borð var talið rétt og mögulegt að fara þá leið að gefa Sigrúnu Pálínu kost á áheyrn ráðsins verði að telja það ámælisverð vinnubrögð að leysa ekki úr máli Guðrúnar Ebbu þegar með sambærilegum hætti og til viðbótar að láta hana bíða í rúmt ár eftir frekari viðbrögðum við erindi hennar og þá ekki fyrr en hún hafði í annað skipti ítrekað ósk sína um áheyrn kirkjuráðs.

Það er því ótvírætt niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að Karl Sigurbjörnsson hafi við meðferð erindisins borið sem biskup og forseti kirkjuráðs ábyrgð á þessum mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×