Innlent

Telur óþarfi að kalla þingið saman

Þór Saari og Bjarni Benediktsson. Þór telur ástæðulaust að kalla Alþingi saman.
Þór Saari og Bjarni Benediktsson. Þór telur ástæðulaust að kalla Alþingi saman.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, er ósammála Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og telur óþarfi að kalla Alþingi saman vegna þess sem Bjarni kallar klúður stjórnarflokkanna þegar gleymdist á lokadögum þingsins að afgreiða mál sem snertu bæði Drekaútboðið og atvinnuleysisbætur. „Ég get ekki séð af hverju þing þarf að koma saman út af þessu,“ segir Þór.

Bjarni segir að ríkisstjórnin sé að velta fyrir sér að setja bráðabirgðalög vegna klúðurs við að framlengja lagaheimild um hluta-atvinnuleysisbætur áður en þingið fór í sumarhlé. Af þeim sökum ætti að kalla Alþingi saman og þá gæfist einnig tækifæri til að leiðrétta annað klúður ríkisstjórnarinnar sem snýr að útboðsmálum á Drekasvæðinu. Bráðabirgðalög eru lög sem sett eru af ríkisstjórn án aðkomu Alþingis, en lögin eru borin undir þingið um leið og það kemur saman.

Varðandi útboðsmálin segir Þór vel hægt að bíða þess að Alþingi komi saman í byrjun september og hvað hluta-atvinnuleysisbæturnar varðar segir Þór: „Ef að þetta var eitthvað klúður er spurning um að setja bráðabirgðalög því þetta getur komið illa við pyngjuna hjá fólki eða þá að greiða þetta út með reglugerð samkvæmt gömlu lögunum, en ég veit ekki hvort það er heimilt.“


Tengdar fréttir

Alþingi komi saman til að leiðrétta klúður

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að kalla verði Alþingi saman til að leiðrétta klúður stjórnarflokkanna þegar gleymdist á lokadögum þingsins að afgreiða mál sem snertu bæði Drekaútboðið og atvinnuleysisbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×