Innlent

Metfjöldi umsókna um greiðsluaðlögun

Einstaklingar sem sækja um greiðsluaðlögun eftir miðnætti á morgun komast ekki í greiðsluskjól fyrr en umsókn þeirra hefur verið afgreidd hjá umboðsmanni skuldara. Tvöhundruð umsóknir hafa borist embættinu í vikunni sem er jafn mikið og það fær að meðaltali á mánuði.

Tímabundið ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga fellur niður 1. júlí næstkomandi sem þýðir að þeir sem sækja um eftir þann tíma fá ekki frestun greiðslna fyrr en umsókn hefur verið samþykkt.

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, segir afgreiðsluna taka rúma fimm mánuði og á þeim tíma verði hægt að ganga á eignir umsækjanda. „Í neyðartilfellum þá munum við geta afgreitt umsóknir með styttri tíma en þá verða alltaf að vera að minnsta kosti tíu virkir dagar sem við höfum til þess að afgreiða umsókn."

Mikið álag hefur verið á starfsmönnum stofnunarinnar en tæplega tvöhundruð umsóknir hafa borist í þessari viku einni. „Þessi vika mun ná upp í það sem við erum yfirleitt að fá á einum mánuði," segir Svanborg.

Svanborg segir að umsækjendur þurfi að hafa undir höndum umsókn sem er að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara, samþykki fyrir gagnaöflun og þrjá síðustu launaseðla, þ.e. ef fólk er sjálfstætt starfandi.

Allt í allt hafa 3100 umsóknir borist til Umboðsmanns skuldara, þar af 1200 verið afgreiddar. 900 eru hjá umsjónarmanni, sem semur um greiðslur og afskriftir, en 30 samningar eru komnir á það stig að fólk er farið að borga eftir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×