Innlent

Færri hjólastígar en áætlun gerði ráð fyrir

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi
Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Mynd/Daníel rúnarsson
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna meirihlutann fyrir að ætla að leggja 16 prósent þeirra hjólstíga sem ákveðið hafði verið að leggja á árinu 2011.

Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að samkvæmt aðgerðaáætlun um lagningu hjólreiðastíga, sem allir flokkar samþykktu í maí í fyrra, átti að leggja 10 kílómetra af hjólastígum á ári 2011, 2012 og 2013. „Talað var um stórátak og allir flokkar fögnuðu framtakinu."

Aðgerðaáætlunin byggðist á hjólreiðaáætlun Reykjavíkur sem nefnist Hjólaborgin Reykjavík og var samþykkt í borgarstjórn í janúar árið 2010.

Í áætluninni kemur fram að fimmfalda skuli hjólastíga í borginni á næstu fimm árum og tífalda þá á næstu tíu árum. Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær kom í ljós að meirihlutinn mun aðeins leggja 1,6 kílómetra af hjólreiðastígum á þessu ári.

Gísli Marteinn Baldursson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði segir í tilkynningu þetta vera vond tíðindi fyrir borgarbúa. „Allt skipulag að undanförnu hefur miðast við að fleiri geti nýtt sér umhverfisvæna ferðamáta til að komast á milli staða. Þannig minnkum við umferð og drögum við úr hávaðamengun og svifryksmengun sem borgarbúar telja meðal helstu ógnana við lífsgæði sín. Fyrst skerti meirihlutinn þjónustu strætó og nú þetta. Samt segir í samstarfsyfirlýsingu þeirra að hjólandi vegfarendur skuli vera í forgangi," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×