Íslenski boltinn

Jón Ólafur: Skelfileg varnarmistök

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Anton
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Anton
Jón Ólafur Daníelsson þjálfari ÍBV var að vonum vonsvikinn eftir tap stelpna sinna fyrir Stjörnunni í Garðabæ 2-1 í kvöld en liðið fékk á sig mark í fyrsta sinn í sumar í kvöld. „Það var vitað mál að það kæmi að því,“ sagði Jón Ólafur en hann var alls ekki sáttur við varnarleikinn í mörkunum sem Stjarnan skoraði.

„Það var ekki upplagt að falla svona til baka en Stjarnan er með sterkt lið en það sem er sorglegast í þessu eru að það eru skelfileg varnarmistök sem valda þessum mörkum, sérstaklega fyrra markinu. Við fórum yfir þetta fyrir leikinn og aftur í hálfleik en svo gera þær sig sekar um þessi mistök sem var búið að ræða að gera ekki.“

„Stjörnuliðið er hrikalega gott fótboltalið. Þær eru líkamlega sterkar og kunna á þetta gervigras. Þær vita hvernig boltinn skoppar og kunna að lesa leikinn á þessu gervigrasi. Þetta var frábær leikur og það er ekkert um þetta að segja. Við gerðum tvenn varnarmistök og Stjarnan skoraði, við förum heim og grátum það og höldum svo ótrauðar áfram,“ sagði Jón Ólafur þjálfari nýliða ÍBV sem féllu úr fyrsta sæti í það þriðja í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×