Hákon Arnar hefur spilað gríðarlega vel að undanförnu. Skoraði hann til að mynda eina mark liðsins í 1-1 jafntefli gegn Borussia Dortmund í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Skagamaðurinn var því í byrjunarliðinu í kvöld en tekinn af velli þegar stundarfjórðungur rúmur lifði leiks. Þrátt fyrir að koma ekki að sigurmarki Lille átti Hákon Arnar virkilega góðan leik á vinstri vængnum.
Allar þrjár tilraunir hans til að leika á mótherjann heppnuðust, alls rötuðu 49 af 56 sendingum hans á samherja, hann vann sjö af átta einvígum sínum og þá sótti Hákon Arnar þrjár aukaspyrnur.
Á endanum var það hinn sjóðheiti Jonathan David sem skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu. Þessi 25 ára kanadíski framherji hefur nú skorað 22 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni. Þá hefur hann lagt upp 10 mörk til viðbótar.
Lokatölur í Lille 1-0 og liðið nú með 44 stig í 5. sæti líkt og Monaco sem er sæti ofar. Nice er í 3. sæti með 46 stig og Marseille í 2. sæti með 49 stig – bæði lið eiga leik til góða á Lille og Monaco. Efstu þrjú sæti frönsku deildarinnar veita þátttökurétt í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu á meðan 4. sætið þarf að fara í gegnum umspil.
Næsti leikur Lille er síðari leikurinn gegn Dortmund á miðvikudaginn kemur. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.