Erlent

Reyna að ná í glæpón með því að lýsa eftir kærustunni

Þessi mynd er tekin í kring um 2008 og talin sýna Bulger og Greig á Ítalíu.
Þessi mynd er tekin í kring um 2008 og talin sýna Bulger og Greig á Ítalíu. MYND/AP

Bandaríska alríkislögreglan hefur ákveðið að beita óhefðbundum aðferðum til þess að freista þess að hafa hendur í hári James "Whitey" Bulger, sem er efstur á lista stofnunarinnar yfir eftirlýsta glæpamenn.

Alríkislögreglan hefur hrint af stað auglýsingaherferð í sjónvarpi þar sem kastljósinu er ekki beint að Bulger sjálfum, heldur kærustunni hans, Catherine Greig, sem verið hefur á flótta með honum í sextán ár. Bulger er 81 árs gamall gangster frá Boston sem stýrði Winter Hill genginu sem var alræmt á sínum tíma. Hann er grunaður um að minnsta kosti nítján morð og ótal aðra glæpi.

Parið er talið hafa sést síðast í London árið 2002 en annars hefur ekkert til þeirra spurst. Nú á að freista þess að ná sérstaklega til kvenna með því að sýna myndir af Greig og er vonast til að vinkonur hennar, samstarfsmenn, hárgreiðslukona eða tannlæknir beri kennsl á hana.

Greig er tuttugu árum yngri en Bulger, mikill dýravinur sem stundar hárgreiðslustofur og heilsulindir grimmt. Þá er hún sögð verða með fallegar hvítar tennur, enda fyrrverandi klínikdama. Tvær milljónir dollara eru í boði fyrir þann sem getur veitt upplýsingar um Bulger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×