Innlent

15 metra reglan: Gjaldskráin lækkuð og tveir kostir boðnir

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að lækka gjaldskrá fyrir viðbótarþjónustu vegna sorpíláta sem standa lengra en 15 metra inni á lóð. Gjaldið lækkar úr 4.800 krónum niður í 4.000 krónur á ári á hvert sorpílát miðað við losun á tíu daga fresti. „Gjaldið verður aðeins 2.000 krónur á ári ef losað er á 20 daga fresti,“ segir ennfremur í tilkynningu frá borginni en þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Þá segir að ítarlegar mælingar og innleiðing 15 metra viðbótarþjónustunnar á síðustu mánuðum hafi leitt í ljós mikið af verðmætum upplýsingum um sorphirðuna í borginni. „Getur Reykjavíkurborg hagnýtt sér þessar upplýsingar í framtíðinni til mikillar hagræðingar í sorpþjónustunni,“ segir einni en að mati borgaryfirvald getur breytt sorphirða sparað borginni umtalsverða fjármuni á hverju ári. „Reynt verður að hafa þjónustuna eins þægilega og sveigjanlega fyrir íbúana og mögulegt er.“

Tveir kostir í boði

Boðið er upp á tvo valkosti í sorphirðu; annars vegar losun á 10 daga fresti og hins vegar 20 daga fresti. „Þeir íbúar sem velja síðari kostinn geta sparað helming í sorphirðugjöldum. Hvetur Reykjavíkurborg alla notendur sorpþjónustunnar til að kynna sér vel alla valkosti varðandi sorphirðu og flokkun sorps í þeim tilgangi að spara heimilunum og borginni mikið fé. Aukin flokkun kemur umhverfinu einnig til góða þar sem minna sorp fer til urðunar.“

Þá segir að þeir sem kjósi að hafa tunnur sínar lengra inni á lóð en 15 metra hafi einnig þann möguleika að trilla tunnum sínum sjálfir fram á sorplosunardögum svo þeir þurfi ekki að greiða gjaldið. „Nú hefur sorpþjónustan ákveðið að losa allar tunnur burtséð frá því hvar þær standa á losunardögum því fólk getur auðveldlega gleymt því að trilla með tunnurnar. Viðbótargjald mun aðeins leggjast á ef misbrestur á trillinu verður ítrekaður.“

Samkvæmt tilkynningunni hafa mælingar leitt í ljós að 30% sorpíláta í borginni eru staðsett lengra en 15 metra frá götu og hafa um þrjátíu prósent þeirra þegar óskað eftir viðbótarþjónustu. Viðbótargjaldið mun leggjast á 1. ágúst nk.

Hægt er að sækja um breytingar á allri þjónustu í sorphirðu á netfanginu sorphirda@reykjavik.is .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×