Innlent

Hyllir undir samninga - hafa fundað samfleytt síðan í gærmorgun

Signý Jóhannesdóttir er ósátt við að Samband íslenskra sveitarfélaga telji sig ekki bundið af yfirlýsingunni um jöfnun lífeyrisframlaga
Signý Jóhannesdóttir er ósátt við að Samband íslenskra sveitarfélaga telji sig ekki bundið af yfirlýsingunni um jöfnun lífeyrisframlaga Mynd Pjetur
Samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands og Flóafélaganna hafa setið í rúman sólarhring á samningafundi við Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundurinn hófst klukkan átta í gærmorgun og stendur hann enn.  

Signý Jóhannesdóttir, formaður samninganefndar Starfsgreinasambandsins, segist orðin langþreytt en býst við að skrifað verði undir samninga á næstu klukkstundum, þó með nokkrum semingi.

Signý segir að það sem út af standi sé að Samband íslenskra sveitarfélaga standi fyrir fyrirheit sem gefin voru í yfirlýsingu sumarið 2009 um að haldið yrði áfram að jafna framlög í lífeyrissjóði SGS-félaganna og BSRB-félaganna.

„Við byrjuðum árið 2001 að jafna þessi réttindi. Síðan hefur framlag í lífeyrissjóð starfsmanna verið aukið um hálft prósent. Við undirrituðum yfirlýsingu sumarið 2009 um að þetta yrði verkefni þessa kjarasamnings, að ganga frá hvernig þessi jöfnuður yrði en samninganefnd sveitarfélaganna telur sig ekki bundna af yfirlýsingunni og hefur að okkar mati svikið það sem þar kemur fram. Það eru gríðarleg vonbrigði en þrátt fyrir það gerum við ráð fyrir að skrifa undir kjarasamning á næstu klukkustundum," segir Signý.

Spurð um ástæðu þess að samningamenn sveitarfélaganna telja sig ekki bundna af þessu segir hún að þeir vísi í erfitt efnahagsástand í þjóðfélaginu.

„Mér þykir slæmt að skrifa undir kjarasamning en upplifa að maður hafi verið svikinn í tryggðum," segir Signý.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×