Enski boltinn

Valencia nálægt því að brjóta ökklann aftur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valencia á kantinum gegn Paragvæ
Valencia á kantinum gegn Paragvæ Nordic Photos/AFP
Antonio Valencia leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United komst nálægt því að endurtaka meiðslin sem ullu því að hann var frá stóran hluta síðasta tímabils. Valencia meiddist á ökkla í markalausu jafntefli Ekvador gegn Paragvæ.

„Andstæðingur hans steig á fótinn á honum og var nálægt því að brjóta hann aftur," sagði Tony Ocampo læknir landsliðs Ekvador.

Valencia var skipt af velli í hálfleik og ljóst er að hann missir af leiknum gegn Venesúela á laugardag. Valencia braut á sér ökklann í leik gegn Rangers í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð og var frá í hálft ár.

„Hann er marinn á staðnum þar sem títaníum platan er staðsett. Hann gat ekki sett neitt álag á löppina en nú hefur bólgan minnkað um 40 prósent síðan á sunnudag. Hann missir af leiknum á laugardaginn en verður leikfær gegn Brasilíu," bætti Ocampo við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×