Innlent

Rannsakar birtingarmyndir kynjanna í námsbókum

Staðlaðar kynjaímyndir hafa verið áberandi í námsbókum sem annars staðar, en nú á að gera formlega rannsókn á stöðunni
Staðlaðar kynjaímyndir hafa verið áberandi í námsbókum sem annars staðar, en nú á að gera formlega rannsókn á stöðunni Mynd úr safni
Jafnréttisstofa hefur ráðið meistaranema í sálfræði til að gera útttekt á námsbókum í grunnskóla út frá birtingarmyndum kynjanna.

Kristín Jónsdóttir hefur verið ráðin í sumarstarf til Jafnréttisstofu. Hún mun taka út námsbækur í samfélagsfræði á miðstigi grunnskóla út frá birtingamyndum og orðræðu um stúlkur og drengi, karla og konur. Í kjölfar úttektarinnar verður gerð skýrsla um niðurstöðurnar, ætluð yfirvöldum skólamála, kennurum og öðrum sem áhuga hafa.

Þetta kemur fram á vef Jafnréttisstofu.

Þar segir að allt frá 1976 hefur verið ólöglegt að hanna og nota kennsluefni sem mismunar kynjunum á einhvern hátt, en mjög lítil umræða hefur verið um hvort og hvernig hefur verið fylgst með því að þetta lagaákvæði sé virt og hvort eldra kennsluefni er tekið til mats að þessu leyti og þá hvernig.

Í vetur sendi Jafnréttisstofa mennta-og menningarmálaráðuneytinu bréf þar sem ráðuneytið var minnt á eftirlitsskyldu þess varðandi útgáfu námsbóka samkvæmt 23. grein jafnréttislaga.

Tilefni bréfsins var útgáfa nýlegra námsbóka í samfélagsfræði sem endurspegla mjög karllæga sýn á sögu Íslendinga þar sem kvenna er varla getið hvað þá að einhverjar séu nafngreindar. Þegar fleiri námsbækur voru skoðaðar kom í ljós að umfjöllun í samfélagsfræði viðheldur hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna, þar sem karlar eru virkir gerendur í samfélaginu á meðan konur eru lítt sýnilegar og bundnar við heimilið.

Þess má geta að Lára Hanna Einarsdóttir gerði óformlega útttekt á birtingarmyndum og hlutverkum kynjanna í námsbókum þegar hún var við nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1993. Í bloggfærslu Láru Hönnu má kynna sér verkefnið. Færslan er skrifuð á síðasta ári þar hvetur hún til þess að gerð sé ítarleg útttekt á þessum málum

Sjá vef Jafnréttisstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×