Innlent

Grasrótin ekki velkomin í Valhöll

Mörgum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins þykja þeir ekki lengur velkomnir í Valhöll.
Mörgum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins þykja þeir ekki lengur velkomnir í Valhöll. Mynd/Pjetur
Fólki líkar ekki hvernig Valhöll er stýrt og upplifir sig ekki lengur velkomið á flokksskrifstofu Sjálfstæðisflokksins eftir að Jónmundur Guðmarsson settist í framkvæmdastjórasætið. Greint var frá þessu í DV í dag. Fundur kjördæmisráðs hefur verið færður úr Valhöll.

"Þegar Jónmundur kom inn breyttist allt yfirbragð og viðmót." segir flokksmaður Sjálfstæðisflokksins, sem ekki vildi láta nafns síns getið. "Upplifun fólks er að það sé ekki velkomið þarna innandyra. Það sé hálfpartinn fyrir."

Breytingar sem orðið hafa undir stjórn Jónmundar hafa verið gagnrýndar mikið. Að sögn viðmælanda Vísis upplifir fólk nú ákveðinn hóp innan flokksins sem einhverskonar elítu. Þá séu sögusagnir um að starfsmenn Valhallar séu þar á mjög háum launum, en þegar Jónmundur tók við var fólki sem þar hafði unnið um langt skeið sagt upp og nýtt fólk ráðið í þeirra stað.

Fundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins var síðast haldinn í Grafarvogi, og var það í fyrsta sinn sem slíkur fundur átti sér stað utan Valhallar. Viðmælandi taldi það hafa verið gert til að vera nær grasrótinni og jafnvel til að senda skilaboð. Þá sagðist hún hafa fregnað að Grafavogsfundurinn hafi ekki verið einsdæmi, og því mætti búast við því að næsti fundur verði einnig haldinn utan Valhallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×