Erlent

Fleiri bresk blöð uppvís að njósnum

Óli Tynes skrifar
Gordon og Sara Brown
Gordon og Sara Brown
Breska blaðið The Guardian segir að umrædd blöð  hafi verið The Sun og Sunday Times. Meðal annars hafi verið njósnað um Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra. Bæði hafi bankareikningar hans verið skoðaðir og einnig stolið gögnum um veikindi Frasers sonar hans. Fraser greindist fjórum mánuðum eftir fæðingu með alvarlegan arfgengan lungnasjúkdóm. Brown hefur lýst því að hann hafi verið gráti næst þegar The Sun tilkynnti honum að blaðið vissi af þessum sjúkdómi og ætlaði að flytja um hann frétt.  Brown hjónin höfðu nokkrum árum áður misst dóttur sem fæddist fyrir tímann.



Þá eru blöðin tvö einnig sökuð um að hafa mútað lífvörðum Elísabetar drottningar til þess að fá upplýsingar um konungsfjölskylduna.  Símar fjölskyldunnar hafi einnig verið hleraðir. Þótt Bretar séu ýmsu vanir af fjölmiðlum sínum hefur þeim algerlega ofboðið að þeir skyldu stunda stórfelldar kerfisbundnar njósnir um alsaklaust fólk.



Þessar upplýsingar hafa hleypt í uppnám yfirtöku fjölmiðlasamsteypu Ruperts Murdochs á British Sky Broadkasting. Jafnframt hafa hlutabréf í samteypunni fallið um milljarða dollara. Á þingi hefur verið hvatt til sérstakrar rannsóknar á pólitískum áhrifum Murdochs og hvernig hann hefur beitt fjölmiðlum sínum til þess að auka þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×