Erlent

Meira en 100 enn saknað

Aðstandendur farþega og áhafnar Bulgariu.
Aðstandendur farþega og áhafnar Bulgariu. Mynd/AP
Yfir eitt hundrað manns er enn saknað eftir að rússneskt skemmtiferðaskip sökk á innan við fimm mínútum í gær.

Rússnesk yfirvöld eygja litla von til að finna fleiri á lífi eftir að skipið Bulgaria sökk í ánni Volgu í miðhluta Rússlands í gær. Auk áhafnar voru hátt í 180 farþegar um borð, þar af fjölmörg börn. Um 80 manns var bjargað úr sjónum, þar á meðal í nálæg skemmtiferðaskip. Enn er um eitt hundrað manns saknað og þá hefur verið staðfest að sex séu látnir.

Volga er lengsta á Evrópu og ein mesta siglingaleið innan Rússlands. Fjölmörg skemmtiferðaskip fara um Volgu á þessum árstíma.

Skemmtiferðaskipið Bulgaria var komið vel til ára sinna en það var smíðað fyrir um 55 árum og hefur verið í stanslausri notkun síðan. Skipið er sagt hafa uppfyllt allar öryggiskröfur. Ekki liggur fyrir hvort fleiri farþegar hafi verið um borð en leyfilegt er. Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, hefur fyrirskipið að fram fari opinber rannsókn á slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×