Erlent

Verður látinn svara fyrir lát hvers einasta manns sem féll

Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik verður látinn svara fyrir lát hvers einasta manns sem féll á föstudag í síðustu viku, en norski ríkissaksóknarinn Tor-Aksel Busch sagði í samtali við norska ríkissjónvarpið að ljóst væri að ákæran gegn Breivik verði ekki tilbúin fyrir áramót.

Anders Breivik er nú í gæsluvarðhaldi en hann hefur borið fram ýmsar kröfur um vist sína í fangelsinu. Hann hefur beðið um sérstakan matseðil. Hann vill fá aðgang að 1500 blaðsíðna yfirlýsingu sinni, fartölvu og leyfi til þess að fylgjast með Wikilaks. Breivik er haldið í einangrun og því telja norksir fjölmiðlar það ólíklegt að hann fái fartölvu eða aðgang að netinu því hann fær hvorki aðgang að dagblöðum né útvarpi og sjónvarpi.

Á blaðamannafundi í morgun sagði lögreglustjórinn í Noregi það hins vegar mikilvægt að byggja upp samfélagið í Útey á ný.

Johan Fredriksen, starfsmannastjóri lögreglunnar í Osló, sagði að þrátt fyrir að mikið verk hefði þegar verið unnið, væri starfinu ekki lokið. „Það verður mikið verk að skapa aftur eðlilegar aðstæður á eyjunni svo að eigendurnir geti aftur tekið við henni."

Jóhanna Sigurðardóttir fór til Noregs í dag til að taka þátt í minningarathöfn sem verður haldin á morgun á vegum norska verkamannaflokksins. Formönnum systurflokka verkamannaflokksins á Norðurlöndum var boðið á athöfnina ásamt formönnum ungliðahreyfinga þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×