Fótbolti

Áfrýjun Real Madrid á leikbanni Mourinho tekið fyrir af UEFA á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mourinho sendur upp í stúku á Bernabeu.
Mourinho sendur upp í stúku á Bernabeu. Nordic Photos/AFP
Evrópska knattspyrnusambandið tekur á morgun fyrir áfrýjun Real Madrid á fimm leikja banninu sem Jose Mourinho knattspyrnustjóri Real Madrid hlaut í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Reiknað er með því að Mourinho mæti á fundinn og standi fyrir máli sínu.

Mourinho hlaut fimm leikja bannið fyrir brottvísun sína í fyrri undanúrslitaviðureign Real Madrid og Barcelona á Bernabeu. Auk þess höfðu ummæli Mourinho að leiknum loknum áhrif á lengd bannsins. Mourinho ætlar að mæta á fundinn en virðist ekki vera að stressa sig mikið á hlutunum.

Mér finnst þetta ekki mikilvægur fundur. Ég vil vera kominn aftur til Madrid klukkan fimm til þess að geta stjórnað æfingu hjá liði mínu, sagði Mourinho við spænska blaðið Marca.

Mourinho, sem tók út fyrsta leikinn í banni sínu í síðari viðureigninni á Nou Camp, hlaut einnig 50 þúsund evru sekt eða sem nemur rúmum átta milljónum króna.

Meðal þess sem Mourinho lét flakka eftir 2-0 tapið á Bernabeu var að Barcelona hefðu mikil áhrif á dómara sem væru þeim hliðhollir. Hann gaf í skyn að það gæti verið vegna þess að þeir bæru UNICEF auglýsingu á búningi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×