Erlent

Kínverska lögreglan bjargar 89 börnum

Mynd/afp
Kínverska lögreglan hefur á undanförnum vikum bjargað 89 börnum sem hafði verið smyglað frá Vietnam til Kína. Börnin voru á aldrinum tíu daga til nokkurra mánaða og talið að hafi átt að selja þau til ættleiðingar.

Börnunum er í flestum tilfellum smyglað yfir Beilun fljótið á landamærum ríkjanna. Mikill markaður er fyrir ungbörn í Kína þrátt fyrir ströng viðurlög sem geta jafnvel verið dauðadómur. Mörgum barnanna er hreinlega stolið en önnur eru keypt af foreldrunum.

Ítalska þingið hefur fellt lagafrumvarp um hertar refsingar fyrir hatursbrot gegn samkynheigðum og kynleiðréttum. Það var neðri deild þingsins sem felldi frumvarpið en íhaldsflokkur Berlusconis forsætisráðherra hefur þar mikinn meirihluta. Andstæðingar frumvarpsins báru því við að koma ætti fram við samkynhneigða eins og hverja aðra borgara og ekki setja sérstök lög vegna þeirra.

Bretar hafa opinberlega viðurkennt bráðabirgðastjórn uppreisnarmanna í Líbíu sem réttmæta stjórn landsins. Jafnframt hefur þeim átta starfsmönnum og ættingjum þeirra sem eftir eru í sendiráði Líbíu í Lundúnum  verið gert að yfirgefa landið innan þriggja sólarhringa. Yfir þrjátíu lönd hafa viðurkennt bráðabirgðastjórn uppreisnarmanna. Þeirra á meðal eru Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×