Innlent

Reykjavíkurborg áminnt og sektuð

Innanríkisráðuneytið hefur sent Reykjavíkurborg bréf þar sem þess er krafist að þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar verði kynnt innan fjögurra vikna, annars verði gripið til úrræða. Staðgengill borgarstjóra segir fjármögnun málefna fatlaðra það eina sem enn eigi eftir að fullvinna.

Í bréfinu er hótað að dagsektum og stöðvun greiðslna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkvæmt lögum um sveitarfélögu ef áætlunin verður ekki birt. Samkvæmt lögunum á sveitarfélag skila inn þriggja ára áætlun fyrir lok febrúarmánaðar. Borginni hefur nú verið veittur fjögurra vikna frestur.

Regína Ásvaldsdóttir, staðgengill borgarstjóra, segir að rekja megi töfina til flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Eitt hundrað sjötíu og sjö milljónir þurfi til að fjármagna málaflokkinn auk þess sem jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem er á vegum innanríkisráðuneytisins, gerir áætlun um ellefu mánaðargreiðslu í stað tólf mánaða. Alls vanti því fjögur hundruð þrjátíu og átta milljónir. Hún segir fjármálaskrifstofu borgarinnar hafa verið falið að hefja undirbúning og að borgin verði við beiðni ráðuneytisins og skili fjármagnsáætlun inann fjögurra vikna. Ekki sé víst hvort hægt verði að ganga frá málaflokkum á þeim tíma og því gæti borgin þurft að skila áætluninni með fyrirvörum.

Þá hefur Kauphöll Íslands áminnt og sektað Reykjavíkurborg og fjögur önnur sveitarfélög fyrir að skila ekki ársreikningum sínum til Kauphallarinnar á réttum tíma, tíu sveitarfélög skiluðu hins vegar of seint. Sveitarfélögin sem voru sektuð, auk Reykjavikurborgar eru Sandgerðisbær, Vestmannaeyjabær, Norðurþing og Langanesbyggð.

Samkvæmt sveitastjórnarlögum á að skila inn ársreikningum fyrir lok aprílmánaðar. Fjögur fyrrgreindra sveitarfélaga skiluðu ársreikningunum inn um miðjan maí, en Vestmannaeyjabær skilaði þeim inn seinni hlutann í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×