Innlent

Gátlisti ökumanna fyrir helgina

Mynd úr safni
Nú er verslunarmannahelgin framundan og má búast við mikilli umferð um vegi landsins. Umferðarstofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar og öruggrar heimkomu, en til að tryggja það sem best vill Umferðarstofa koma eftirfarandi á framfæri:

Ekki fara of hratt né of hægt

Ökumenn eru hvattir til að halda jöfnum hraða og fara hvorki of hratt né of hægt því með og hægum akstri eykst hættan á óþarfa framúrakstri. Ef ökumenn þurfa að fara hægar en almennur hámarkshraði segir til um eins og t.d. ökumenn sem eru með eftirvagna þá er mjög brýnt að þeir hagi akstri þannig að sem auðveldast sé fyrir aðra bíla að komast fram úr. Við framúrakstur skal þess gætt að bannað er að fara framúr yfir heila óbrotna línu sem aðskilur akstursstefnur. Minnt skal á að ökumenn með eftirvagna mega ekki fara hraðar en 80 km/klst.

Lítill hópur ökumanna er í mikilli hættu

Þótt öryggisbeltin hafi fyrir löngu sannað ágæti sitt og flestir ökumenn noti þau er sá litli hópur ökumanna sem ekki notar öryggisbelti hlutfallslega einn þeirra hópa  vegfarenda sem eru  í hvað mestri lífshættu. U.þ.b. 20% þeirra sem látast í umferðarslysum eru taldir hafa látist af völdum þess að þeir voru ekki í öryggisbeltum.

Einn laus einstaklingur í bíl stofnar ekki bara eigin lífi í hættu heldur og einnig annarra sem í bílnum eru. Við árekstur eða bílveltu kastast viðkomandi til í bílnum og höggþunginn getur orðið margföld þyngd hans. Sem dæmi má nefna að ef maður sem er 75kg af þyngd lendir í árekstri á 70km hraða án bílbelta verður höggþungi hans u.þ.b. 6 tonn.

Ökumenn eru hvattir til að ganga tryggilega frá farangri þannig að ekki sé hætta á að hann kastist til og valdi líkamstjóni við árekstur.

Manndráp af gáleysi

20% allra banaslysa í umferðinni eru af völdum þess að ökumaður er undir áhrifum áfengis og er þá ekki meðtaldir aðrir vímugjafar. Oft eru áhrifin ekki mikil en afleiðingarnar hinsvegar mjög alvarlegar.

Í  flestum tilfellum eiga tryggingarfélög endurkröfurétt á ökumann sem valdur er að slysi vegna ölvunar og ef ölvaður ökumaður verður valdur að dauða einhvers er litið á það sem manndráp af gáleysi og kveðnir hafa verið upp  fangelsisdómar í slíkum tilfellum.

Það er mikilvægt að aðstandendur ökumanns sem hyggst aka undir áhrifum vímuefna reyni að koma í veg fyrir það. Ef það tekst ekki með góðum ráðum skal hringja í 112 og koma með því í veg fyrir að viðkomandi verði valdur að alvarlegu slysi. Það vandamál sem hugsanlega kann að skapast af því að hringt sé í lögreglu er lítilvægt borið saman við mögulegar afleiðingarnar ölvunaraksturs.

Hafa skal í huga að áfengi er lengi að fara úr líkamanum og í sumum tilfellum getur þurft að bíða í 14 - 15 klukkustundir áður en áfengi er farið úr blóðinu.

Slysatíðni karla og kvenna?

Svo virðist sem karlkyns ökumenn séu líklegri til að viðhafa tiltekna áhættuhegðun í umferðinni en konur og nota ekki viðeigandi öryggisútbúnað.

Fram kemur í slysaskýrslu Umferðarstofu fyrir árið 2010 að þá voru 44 ökumenn valdir af slysum þar sem ölvun þeirra var aðal orsök slyssins. Af þeim voru 36 karlmenn og 8 konur.

Í slysatölum ársins 2010 kemur einnig fram að þeir ökumenn sem urðu valdir af slysum þar sem hraðakstur er aðal orsök voru samtals 50. Þar af voru 7 konur en 43 karlar. Af þessu má ljóst vera að töluvert fleiri karlmenn eru valdir af slysum vegna hraðaksturs og ölvunar en konur og er þessi munur margfalt meiri en sá munur sem er á fjölda karla og kvenna í umferðinni.

Starfsmenn Umferðarstofu munu standa vaktina um helgina og miðla upplýsingum og leiðbeiningum til vegfarenda á Bylgjunni, Rás 1 og Rás 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×