Innlent

Nýr rósagarður í Laugardalnum

Mynd úr safni / Stefán Karlsson
Nýr rósagarður hefur verið opnaður í Laugardal. Rósagarðurinn var vígður á fimmtudag í liðinni viku með viðhöfn til heiðurs Jóhanni Pálssyni, grasafræðingi og fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, en hann fagnaði áttræðisafmæli sínu þann dag.

Rósagarðurinn nýi, sem er hluti af skrúðgarðinum í Laugardal, er samvinnuverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands, Yndisgróðurs og Reykjavíkurborgar. Rósagarðurinn er staðsettur milli Grasagarðsins og félagsheimilis KFUM og KFUK við Holtaveg. Hann er aðgengilegur frá Sunnuvegi og Holtavegi.

Vígsla Rósagarðsins var í framhaldi af rósagöngu, en þar leiddi Jóhann gesti um rósasafn Grasagarðsins og fræddi fólk um rósirnar sem þar er að finna. Ríflega 120 manns sóttu viðburðinn í blíðskaparveðri, nutu leiðsagnar Jóhanns um rósirnar í Grasagarðinum og fögnuðu vígslu Rósagarðsins í Laugardal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×