Innlent

Landsbankinn hafði ekkert samráð við Íbúðalánasjóð

Ekkert samráð var haft við Íbúðalánasjóð þegar ákveðið var að færa niður lán Landsbankans, þrátt fyrir að sjóðurinn ætti meira en 50 milljarða lánanna. Lögfræðingur sjóðsins segir að þessi lán verði ekki lækkuð nema sjóðnum verði bætt tjónið.

Í lok maímánuðar kynnti Landsbankinn ýmsar leiðir til að lækka skuldir viðskiptavina sinna sem voru talsvert ríflegri en rúmaðist innan þess ramma sem Íbúðalánasjóður, bankar og aðrar lánastofnanir höfðu áður fallist á. Þá fullyrti bankastjórinn að varúðarsjóðir bankans stæðu að baki aðgerðunum, og að lán allt að 60 þúsund viðskiptavina yrðu færð niður á grundvelli aðgerðanna.

Íbúðalánasjóður á hins vegar greiðslustreymi lána upp á 57 milljarða króna sem Landsbankinn þjónustar, en sjóðurinn keypti lánasafnið árin 2004 og 2005. Þrátt fyrir það staðfestir Gunnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur Íbúðalánasjóðs, að ekkert samráð hafi verið haft við sjóðinn vegna aðgerða bankans.

Hún telur útilokað verðmæti lánanna verði fært niður gagnvart sjóðnum nema samþykki hans liggi fyrir eða greiðsla komi fyrir rýrnun eignanna. Fulltrúar Íbúðalánasjóðs og Landsbankans hafa ræðst við um með hvaða hætti Landsbankinn tryggi að Íbúðalánasjóður verði ekki fyrir tjóni vegna aðgerða bankans, en niðurstaða liggur enn ekki fyrir.

Upplýsingafulltrúi Landsbankans fullyrðir þó að þetta skipti engu máli gagnvart viðskiptavinum bankans; þeir verði allir meðhöndlaðir með sama hætti innan Landsbankaleiðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×