Viðskipti innlent

Með hærri laun en forsætisráðherra

Aðilar vinnumarkaðarins og sveitarstjórnarmenn eru margir með hærri laun en forsætisráðherra en sjónvarpsmenn eru með minna samkvæmt skattaálagningu síðasta árs.

Forsætisráðherra er með rúma 1,1 milljón króna í mánaðarlaun en fast á hæla hennar með tuttugu þúsund krónum minna er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Sveitastjórnarmenn eru hins vegar margir með talsvert hærri tekjur til dæmis Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ með um 1,6 milljónir og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri um 1,3. Borgarstjórinn, Jón Gnarr, kemst hins vegar ekki nálægt þeim með um 960 þúsund krónur í laun.

Aðilar vinnumarkaðarins sem hafa verið áberandi undanfarin misseri eru einnig margir hverjir með hærri laun en forsætisráðherra. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins er með um 1,8 milljónir og Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ með um 1,7 milljónir. Gylfi Arnbjörnsson verkalýðsforingi er hins vegar með um 960 þúsund.

Tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn annað árið í röð er Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins með um 3,7 milljónir sem er meira en tvöfalt hærri laun en ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen er með. Sjónvarpsmaðurinn og leikarinn Steindi Jr. er með um 340 þúsund krónur í mánaðarlaun árið 2010, Auðunn Blöndal sjónvarpsmaður um 800 þúsund og Sveppi félagi hans tæpar 900 þúsund. Þá eru veitinga- og útvarpsmennirnir Simmi og Jói báðir með í kringum 660 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×