Viðskipti innlent

Launahæstu bankamenn landsins lækka um hálfa milljón milli ára

Laun tvö hundruð launahæstu bankamanna landsins lækkuðu um fimm hundruð þúsund krónur milli ára. Fyrirtæki virðast treg að lækka laun millistjórnenda en einungis tvö hundruð þúsund krónur skilja nú að millistjórnendur og forstjóra fyrirtækja.

Tekjublað Frjálsrar Verslunar fyrir árið 2010 kom út í dag. Ef skoðuð eru laun forstjóra fyrirtækja hafa þau nú lækkað um tvöhundruð þúsund krónur á ári frá hruni og eru komin í um tvær milljónir á mánuði.

Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar Verslunar segir það augljóst að ákveðin stöðnun sé í hagkerfinu. Samdráttur hafi verið tvö ár í röð og það sé að speglast í launum fólks. Það sem kemur hins vegar á óvart að mati Jóns er meðal annars að laun millistjórnenda fyrirtækja hafi lítið breyst.

„Hvernig stendur á því að millistjórnendur í rauninni halda sínu, lækka örlítið, en ég hef enga sérstaka skýringu á því annað en það að það virðist vera erfiðara að lækka laun millistjórenenda heldur en topp forstjóranna"

Áberandi launalækkun er meðal tvöhundruð launahæstu starfsmanna fjármálafyrirtækja. Hrunárið 2008 voru þau að meðaltali 4,9 milljónir, lækkuðu niður í tvær milljónir í fyrra og nú niður í fimmtán hundruð þúsund sem er fimm hundruð þúsund króna lækkun.

Læknar hafa lítið breyst í launum milli ára þrátt fyrir mikinn niðurskurð í heilbrigðiskerfinu að undanförnu en tíu tekjuhæstu læknar landsins eru nánast með sömu tekjur í ár og í fyrra en laun þeirra ruku upp árið 2007 og hafa síðan jafnast aftur niður.

Eina stéttin sem hækkar í launum milli ára eru sjómenn og starfsmenn útgerðarfyrirtækja og segir Jón það að mestu skýrast á velgengni útgerðanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×