Innlent

Druslur í miðbænum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Druslulega klæddir hópar gengu fylktu liði á hvorki meira né minna en fjórum stöðum á landinu í dag. Tilefnið var hin svokallaða drusluganga en upphaflega átti hún einungis að fara fram á höfuðborgarsvæðinu. Áhugi Íslendinga lét þó ekki á sér standa og voru þrjár göngur skipulagðar til viðbótar, á Akureyri, Ísafirði og í Reykjanesbæ.

Druslugöngunni er ætlað að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi. „Það skiptir ekki máli hverju maður klæðist, maður er aldrei ábyrgur fyrir því að manni er nauðgað," segir Margrét Erla Maack, þátttakandi göngunnar í Reykjavík.

Fyrirmyndin er ganga sem haldin var í Toronto í apríl eftir að lögreglustjóri borgarinnar sagði að konur þyrftu að forðast að klæða sig eins og druslur til að verða ekki fórnarlömb nauðgana. Starri Hauksson, annar þátttakandi reykvísku göngunnar, segir þörf vera fyrir viðburði sem þessa nánast alls staðar í vestrænu samfélagi. Er nauðsynlegt að bæði karlar og konur séu meðvituð um þessa fordóma? „Það þýðir ekkert að það sé bara annað kynið, því að við berum alveg jafn mikla ábyrgð."

María Lilja Þrastardóttir, einn af skipuleggjendum göngunnar í Reykjavík var að vonum ánægð með góða mætingu. „Ég er mjög hrærð. Íslendingar eru mjög hugsandi og þeir ætla ekki að láta þetta viðgangast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×