Innlent

Merkileg kaflaskil

Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Karl Sigurbjörnsson, biskup. Mynd/GVA
Þjóðkirkjan mun greiða þremur konum fimm milljónir króna í sanngirnisbætur vegna mistaka sem urðu við meðferð kynferðisbrota gegn þeim innan kirkjunnar. Ein kvennanna segist nú loks geta sleppt takinu á málinu.

Sátt var undirrituð í dag milli þjóðkirkjunnar annars vegar og þriggja kvenna hins vegar sem nefndar eru í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjunnar vegna ásakana þeirra um að Ólafur Skúlason, fyrrverandi biskup, hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Guðrún Ebba, dóttir Ólafs heitins, er ekki aðili að sáttinni. Þjóðkirkjan mun greiða hverri konu fimm milljónir króna í sanngirnisbætur vegna mistaka sem kirkjan gerði við meðferð mála þeirra.

Karl Sigurbjörnsson biskup segir að um merkileg kaflaskil sé að ræða, og nú sé hægt að horfa björtum augum fram á veginn. Sátt sé komin í málið.

Nefnd kirkjuþings vinnur nú að umbótatillögum um forvarnir og viðbrögð kirkjunnar við kynferðisbrotamálum, en tillögurnar verða lagðar fyrir kirkjuþing í nóvember. „Kynferðisofbeldi er ekki liðið á vettvangi kirkjunnar," segir Karl.

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir er ein kvennanna, en hún gaf eina milljón sanngirnisbótanna til Stígamóta. Hún hefur alla tíð barist fyrir að réttlætið næði fram að ganga í málinu, og segir að sáttin í dag merki að hún geti loks sleppt takinu.

„Þegar upp er staðið eftir þessa baráttu þá er ég fyrst og fremst þakklát og stolt. Og finnst þetta verkefni vera þess virði að hafa tekist á við það," segir Sigrún Pálína.


Tengdar fréttir

Sátt milli kirkju og kvenna undirrituð í dag

Sátt verður undirrituð í dag milli Þjóðkirkjunnar annars vegar og Dagbjartar Guðmundsdóttur, Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur og Stefaníu Þorgrímsdóttur hinsvegar.

Sáttin undirrituð - Sigrún Pálína styrkir Stígamót

Sátt milli þjóðkirkjunnar annars vegar og Dagbjartar Guðmundsdóttur, Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur og Stefaníu Þorgrímsdóttur hins vegar var undirrituð í dag og gaf Sigrún Pálína Stígamótum eina milljón króna samdægurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×