Erlent

Hundrað myrtir í SýrlandI

Frá fjöldafundi í borginni Hama fyrir rúmri viku. Umsátursástand hefur ríkt í borginni undanfarinn mánuð, en þar hefur verið gerð uppreisn gegn sýrlenskum stjórnvöldum.
Frá fjöldafundi í borginni Hama fyrir rúmri viku. Umsátursástand hefur ríkt í borginni undanfarinn mánuð, en þar hefur verið gerð uppreisn gegn sýrlenskum stjórnvöldum. Mynd/AP
Tæplega 100 óbreyttir borgarar hafa fallið í meiriháttar skriðdrekaárás á borgina Hama í Sýrlandi, en mótmæli hafa magnast í borginni undanfarnar vikur. Umsátursástand hefur ríkt í borginni undanfarinn mánuð, en þar hefur verið gerð uppreisn gegn stjórnvöldum í landinu.

Við dagrenningu í morgun hófst stórfelld árás öryggissveita á borgina, bæði fótgönguliða og skriðdreka, en herliðið rauf vegatálma sem íbúar borgarinnar höfðu reist.

Að sögn mótmælenda er markmið árásanna að knésetja þá sem krefjast lýðræðisumbóta í landinu, en talið er að stjórnvöldum sé mikið í mun að berja niður andstöðu áður en Ramadan gengur í garð.

Þeir segja að meira en 95 óbreyttir borgarar hafi fallið í árásinni, en tugir fólks til viðbótar eru særðir. Fréttastofa Sky hefur eftir einum íbúa borgarinnar að leyniskyttur hafi einnig komið sér fyrir á lykilstöðum.

Avaaz, sem er hópur mótmælenda, segir að öryggissveitir stjórnvalda hafi fellt fleiri en 1600 manns í landinu síðan mótmæli hófust, en til viðbótar hafa tæplega 3000 manns horfið. Um 26.000 manns hafa verið handteknir og margir þeirra lamdir og pyntaðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×