Erlent

Breivik sýndi engin viðbrögð

Verjandi norska hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik segir hann ekki virðast skilja hvaða afleiðingar ódæðisverk hans hafi haft á norskt samfélag. Þá segir hann Breivik engin svipbrigði hafa sýnt þegar hann var upplýstur um fjölda þeirra sem hann myrti.

Hryðjuverkaárás á miðborg Osló og fjöldamorð í Útey voru ekki einu ódæðisverkin sem Anders Behring Breivik hafði áformað. Önnur skotmörk voru norska konungshöllin og höfuðstöðvar Verkamannaflokksins, að því er vefútgáfa norska dagblaðsins Verdens Gang greindi frá í dag.

Breivik mun hafa valið konungshöllina vegna táknrænnar merkingar hennar en höfuðstöðvar Verkamannaflokksins þar sem Breivik taldi flokkinn ábyrgan fyrir því að skapa það fjölmenningarsamfélag sem hann hataðist svo mikið við. Áformin urðu aldrei að veruleika þar sem Breivik var handtekinn í Útey eftir fjöldamorðin þar.

Geir Lippestad, verjandi Breiviks, sagði við norska fjölmiðla að Breivik hefði fyrst í gær fengið upplýsingar hjá lögreglu um hversu marga hann hefði myrt, alls 77 talsins, en hann hefði engin svipbrigði sýnt. Lippestad sagði að Breivik virtist ekki fyllilega gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna fyrir norskt samfélag.

Saksóknari hjá norsku lögreglunni hefur sagt að ákæra muni líta dagsins ljós um áramótin en hann vill ekki aðeins ákæra Breivik fyrir fjöldamorð heldur einnig glæpi gegn mannkyni, en verði hann fundinn sekur gæti hann þurft að sitja í fangelsi ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×