Erlent

Hætta á greiðslufalli

Mynd/AP
Ef ekki verða samþykkt fjárlög í Bandaríkjunum fyrir 2. ágúst næstkomandi er hætta á greiðslufalli bandaríska ríkisins en öldungadeild Bandaríkjaþings felldi í gær frumvarp til fjárlaga.

Það var John Boehner, forseti þingsins og leiðtogi repúblikana, sem lagði frumvarpið fram en það hafði áður verið samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Frumvarp Boehners gerði ráð fyrir niðurskurði í ríkisútgjöldum upp á níu hundruð milljarða dollara og hefði hækkað skuldaþak ríkisins um svipaða fjárhæð. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeildinni með 218 atkvæðum gegn 210 en fellt í öldungadeild þingsins, þar sem Demókratar eru með meirihluta, í gærkvöldi.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hyggst leggja fram sitt eigið frumvarp til fjárlaga en bandaríska ríkið á í hættu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna erlendra lána ef fjárlög verða ekki afgreidd fyrir þriðjudaginn 2. ágúst næstkomandi. Því ef ekki fást heimildir fyrir nýjum lántökum mun ríkissjóður Bandaríkjanna ekki hafa nægt laust fé til að greiða af lánum.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í gærkvöldi að tími flokkshagsmuna væri liðinn og mikilvægt væri að setja hagsmuni bandarísku þjóðarinnar í forgang og ljúka gerð fjárlaga því tíminn væri senn á þrotum.

Sérfræðingar vestanhafs hafa sagt að ef bandaríska ríkið yrði uppskroppa með laust fé og gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar myndi það hafa skelfilegar afleiðingar í för sér á mörkuðum beggja vegna Atlantsála.


Tengdar fréttir

Skuldadeilan í þinginu óleyst

Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi í gærkvöldi frumvarp til sem fjárlaga sem John Boehner, forseti fulltrúadeiladarinnar og leiðtogi repúblikana þar, hafði lagt fram en frumvarpið hafði áður verið samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Frumvarp Boehners gerði ráð fyrir niðurskurði í ríkisútgjöldum upp á 900 milljarða dollara og hefði hækkað skuldaþak ríkisins um svipaða fjárhæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×