Fótbolti

Real Madrid búið að finna sinn Leo en hann er bara sjö ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Argentínumaðurinn Lionel Messi hefur farið fyrir sigurgöngu Barcelona undanfarin tímabil en nú hafa erkifjendurnir í Real Madrid líka eignast sinn Leo frá Argentínu.

Vandamálið er bara að Leonel Angel Coira er bara sjö ára gamall og því langt í að hann fari að hjálpa Real Madrid liðinu að stoppa sigurgöngu Barcelona-liðsins. Hann hefur viðurnefnið Leo alveg eins og landi hans sem er að flestra mati besti knattspyrnumaður heims.

Lionel Messi kom líka ungur til Barcelona (13 ára árið 2000) og fór upp í gegnum hið rómaða unglingastarf félagsins. Hann er enn bara 24 ára en hefur þegar unnið fimmtán titla með Barca og skorað 180 mörk fyrir Katalóníufélagið.

Leonel Angel Coira var í viðtali í argentínskum fjölmiðlum á dögunum þar sem hann sagði að Messi væri fyrirmyndin og uppáhaldsleikmaðurinn hans en að hann væri meira fyrir að senda stoðsendingar en að skora mörk.

Messi var með 53 mörk og 24 stoðsendingar í 55 leikjum með Barcelona í öllum keppnum á síðasta tímabili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×