Innlent

Íslenskir verkfræðinemar slá í gegn

JMG skrifar
Íslenskir verkfræðinemendur hlutu verðlaun frá Airbus á alþjóðlegri hönnunarkeppni sem haldin var í Bretlandi á dögunum - fyrir rafknúinn kappakstursbíl sem hópurinn hannaði.

Hérna í kjallaranum á gömlu vararafstöðinni í elliðaárdal hafa fimmtán verkfræðinemendur úr Háskóla Íslands eytt ófáum stundum síðasta árið við að hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl. Hópurinn tók í sumar þátt í alþjóðlegri hönnunarkeppni Formula Student sem fram fór á Silverstone kappakstursbrautinni í Bretlandi.

„Þetta er hönnunarkeppni sem er fyrir verkfræðinema til þess að læra hvernig á að taka hugmynd og gera hana að veruleika,“ segir Arnar Freyr Lárusson liðsstjóri.

Alls tóku 110 skólar þátt í keppninni víðs vegar að úr heiminum og segir Arnar að mörg lið séu mun háþróaðari og með milljónir króna í fjárframlög á ári.

„Við erum algjört bílskúrsverkefni miðað við hin liðin en það var mjög skemmtilegt, það voru allir mjög hissa hversu langt á veg við erum komin miðað við aðstöðu og þá fjárhæð sem við höfum að spila með.“

Íslenska liðið vakti mikla athygli í keppninni til dæmis fyrir rafkerfi í bílsins sem strákarnir byggðu frá grunni. Liðið heillaði meðal annars forsvarsmenn Airbus sem veitti þeim árleg verðlaun fyrir að vera samheldið og úrræðagott lið. Það þykir mjög eftirtektarvert að fyrsta árs lið hljóti verðlaun. Strákarnir ætla samt aftur á næsta ári og gera enn betur.

„Markmiðið fyrir næsta ár er að klára alla þætti keppninnar og vera með umhverfisvænasta bílinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×