Eiður Smári Guðjohnsen átti stóran þátt í því að gríska liðið AEK Aþena komst í kvöld í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir 1-1 jafntefli á útivelli í framlengdum seinni leik sínum á móti georgíska liðinu Dinamo Tbilisi.
Eiður Smári fiskaði vítaspyrnu og rautt spjald á Levan Kakubava, varnarmann Dinamo Tbilisi, á 110. mínútu leiksins. Brasilíumaðurinn Leonardo skoraði jöfnunarmarkið af öryggi úr vítaspyrnunni og það mark sá til þess að AEK verður pottinum þegar dregið verður í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Alexander Koshkadze kom Dinamo Tbilisi yfir eftir aðeins 55 sekúndna leik og þar með var forskot AEK Aþenu frá því í fyrri leiknum farið fyrir lítið en AEK Aþena vann fyrri leikinn 1-0 með sigurmarki rétt fyrir leikslok.
Hvað eftir annað sauð upp úr á milli leikmanna liðanna og löng töf var sem dæmi á leiknum í seinni hálfleik þegar leikmönnum og þjálfurum lenti saman. Það varð síðan allt vitlaust í leikslok.
Eiður Smári fékk algjört dauðafæri á 75. mínútu en skallaði boltann yfir markið. Hann var annars áberandi í hættulegustu færum AEK í leiknum. Það varð síðan að framlengja leikinn þar sem að fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og þar var íslenski landsliðsmaðurinn örlagavaldur Georgíumannanna.
Fótbolti