Innlent

Grænland og Ísland ræða samstarf vegna olíuleitar

Kuupik Kleist
Kuupik Kleist mynd úr safni
Grænlendingar vonast til að olía geti leitt til sjálfstæðis. Sameiginlegir hagsmunir Íslendinga og Grænlendinga vegna olíuleitar er meðal umræðuefna í þriggja daga opinberri heimsókn Kuupik Kleist, formanns grænlensku landstjórnarinnar, sem hófst í dag.

Kuupik Kleist hóf Íslandsheimsóknina á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í morgun og eftir hádegi fundaði hann Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Þingvöllum. Leiðtogi Grænlendinga mun einnig funda með forseta Íslands og fjármálaráðherra.

Olíu- og gasfundur við vesturströnd Grænlands í fyrra hefur aukið bjartsýni þessara næstu nágranna Íslendinga um sjálfstæði. Kleist segir rannsóknir benda til þess að hugsanlegt sé að mikið magn olíu og gass muni finnast. Það gæti í sjálfu sér gert Grænland efnahagslega sjálfstætt. Efnahagslegt sjálfstæði sé þó ekki það sama og pólitískt sjálfstæði, til að byrja með, en efnahagsmálin skipti miklu máli ef Grænlendingar vilji öðlast sjálfstæði.

Landstjórn Grænlands hefur ákveðið að á næsta ári verði boðin út olíuleit við Austur-Grænland í fyrsta sinn, á sama tíma og Íslendingar opna tilboð í olíuleit á Drekasvæðinu en hafsvæði landanna liggja saman á löngum kafla. Kuupik Kleist segir nauðsynlegt vegna þessa að við löndin hafi sameiginlega stefnu í umhverfismálum vegna olíuvinnslu og það ætli Grænlendingar að ræða um við íslensk stjórnvöld.

Hérlendis sjá margir fyrir sér að olíuleit við Austur-Grænland kalli á umsvif á Íslandi. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir Ísland liggja best við allri þjónustustarfsemi þar og lögð hafi verið áhersla á það í samtölum við Grænlendinga að þeir horfi til Íslendinga um þetta og þeir hafi tekið vel undir það. Þetta muni þó ráðast af vilja olíufélaga sem þarna hefji leit en þetta sé framtíðarsýn sem íslensk stjórnvöld vinni að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×