Innlent

Skylt að birta ljósmyndir sem sýna skaðsemi reykinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skylt verður að sýna ljósmyndir sem sýna skaðsemi reykinga. Mynd/ Getty.
Skylt verður að sýna ljósmyndir sem sýna skaðsemi reykinga. Mynd/ Getty.
Skylt verður að birta ljósmyndir í lit á öllum umbúðum sem innihalda tóbaksvörur til að undirstrika skaðsemi vörunnar. Ákvæði um þetta eru í nýrri reglugerð sem tekur gildi í dag. Þó verður heimilt að flytja inn sígaréttur sem eru merktar í samræmi við eldri reglugerð allt til ársloka 2012 og hafa í sölu til 31. júlí 2013.

Ákvörðun velferðarráðherra um að setja þetta ákvæði í reglugerð er í samræmi við ákvörðun Evrópusambandsins frá 5. september 2003. Þar er kveðið á um notkun ljósmynda í lit eða annars konar skýringarmynda í viðvörunarmerkingum á tóbakspökkum til viðbótar þeim aðvörunum sem þegar eru fyrir hendi. Hverju ríki hefur þó verið í sjálfsvald sett hvort það geri kröfu um merkingar af þessu tagi. Með breytingum á lögum um tóbaksvarnir sem gerðar voru árið 2009 var bætt við ákvæði til að tryggja þessari ákvörðun stoð í íslenskum lögum.

Í reglugerð er gert ráð fyrir að tóbaksframleiðendur skuli standa straum af kostnaði við merkingarnar auk kostnaðar sem hlýst af mælingum og prófunum sem kveðið er á um í reglugerðinni. Þeim er jafnframt gert að láta landlækni árlega í té skrá yfir öll innihaldsefni, ásamt magni þeirra, sem eru notuð við framleiðslu á þessum tóbaksvörum, eftir vöruheiti og tegund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×