Innlent

„Það taka þessu allir með stóískri ró“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Elías Guðmundsson, hótel- og veitingahúsaeigandi í Vík.
Elías Guðmundsson, hótel- og veitingahúsaeigandi í Vík. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Hlaupið hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustu í kringum vegakaflann sem er lokaður milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Víða er uppselt í gistingu á svæðinu og hafa ferðamenn misst af flugi. Hótelstjóri í Vík í Mýrdal segir flesta taka ástandinu með stóískri ró.

Lokun Hringvegsins milli Víkur í Mýrdal og Kirkjubæjarklausturs í gær hefur haft mikil áhrif á ferðamenn á svæðinu sem ýmist hafa ekki komist leiðar sinnar eða eru strandaglópar vegna lokanna. Elías Guðmundsson hótelstjóri Hótels Víkur og Kríu segir að marga ferðamenn í bænum. Nokkuð hafi verið um afbókanir í gær en á móti hafi margir ferðamenn á staðnum þurft að bóka gistingu.

Allt fullt

„Þetta hefur auðvitað haft talsverð áhrif eins og vegalokanir almennt hafa. Fólk sem komst ekki til okkar í gær vegna lokanna þurfti að afbóka en á móti kom að ferðamenn sem voru á svæðinu og ætluðu að halda áfram þurftu á gistingu að halda. Það fylltist því fljótt hjá okkur og hefur verið nóg að gera eins og hjá öllum þeim sem sinna ferðaþjónustu í bænum síðan í gær. Ferðamenn hafa líka lent í því að missa af flugi vegna lokanna og fólk sem á flug í dag eða kvöld er áhyggjufullt. Við erum ýmsu vön hér í Vík en þetta er nokkuð löng lokun,“ segir Elías. 

Elías segir þó ferðamenn rólega yfir ástandinu. 

„Það taka allir þessu með stóískri ró. Sumum finnst þetta jafnvel gríðarlega spennandi, sem eðlilegt er,“ segir hann. 

Gul veðurviðvörun er á svæðinu vegna mikillar úrkomu  og er fólk hvatt til að sýna aðgát. Elías segist ekki hafa velt veðrinu mikið fyrir sér en það bæti ekki úr skák. 

„Veðrið er nú ekki á það bætandi, eins og maður segir,“ segir Elías. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×