Innlent

„Vitum ekki til þess að nokkur hafi verið í hættu“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Grímur Hergeirsson lögreglustjóri á Suðurlandi. 
Grímur Hergeirsson lögreglustjóri á Suðurlandi.  Vísir

Óvissustig er í gildi vegna jökulhlaups úr Mýrdalsjökli. Lögreglustjórinn á Suðurlandi segist ekki vitað til þess að neinn hafi verið í hættu og segir aðgerðir hafa gengið vel. Fyrir liggur að hlaupið er á pari við jökulhlaupið í Múlakvísl 2011. 

Berghildur Erla var á Selfossi, þar sem aðgerðum er stýrt, í Kvöldfréttum og ræddi við Grím Hergeirsson lögreglustjóra á Suðurlandi. 

„Staðan er sú núna að það er ennþá hlaup í gangi í Skálm. Suðurlandsvegur er með öllu lokaður frá Höfðabrekku og austur að Meðallandsvegi.“

Klippa: Óvissustig vegna hlaups

Hann segir að tekin hafi verið ákvörðun um að rýma svæði við Sólheimajökul að höfðu samráði við Veðurstofuna. Reikna megi með að lokunin standi yfir inn í nóttina hið minnsta og til morguns. 

Það hefur flætt yfir veginn við Skálm, hvernig standa málin með tilliti til brúarinnar?

„Það flæddi yfir brúna og þjóðveginn á um kílómeters kafla fyrir austan brúna. Það liggur fyrir að það eru skemmdir á veginum og það verður ekkert hægt að skoða það fyrr en sjatnar í þessu og þá kemur í ljós hvaða aðgerða þarf að grípa til, til að opna.“

Grímur segir mikið af ferðamönnum á svæðinu en ekki sé vitað til þess að nokkur hafi verið í hættu. „Þetta hefur gengið mjög vel og við höfum náð utan um þetta mjög vel.“

Hversu stórt er þetta hlaup með tilliti til annarra?

„Það á auðvitað eftir að koma í ljós eftir að búið er að mæla allt saman en það liggur fyrir að þetta er í stærri kantinum og kannski á pari við það sem við sáum í Múlakvísl 2011.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi yfir jöklinum á sjöunda tímanum í þeim tilgangi að kanna aðstæður. Grímur bendir ferðamönnum sem ætla sér að ferðast um Suðurlandið á að fylgjast með stöðu mála á vef Vegagerðarinnar og vef Almannavarna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×