Innlent

Kópavogur verður ekki að borg - tillagan féll á jöfnu

Boði Logason skrifar
Hamraborgin er í Kópavogsbæ.
Hamraborgin er í Kópavogsbæ. Mynd úr safni
„Ég vildi athuga hvort það væru einhverjir kostir eða gallar í þessu og taldi að þetta væri bara góð umræða fyrir Kópavog," segir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bænum, sem bar upp þá tillögu á bæjarstjórnarfundi í gær að breyta bænum í borg. Bærinn yrði því ekki lengur Kópavogsbær heldur Kópavogsborg.

Tillagan féll á jöfnu, þar sem þrír fulltrúar Samfylkingar, fulltrúi VG og fulltrúi Y-listans greiddu atkvæði gegn henni. Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi Framsóknarflokks og fulltrúi Næst besta flokksins greiddu atkvæði með tillögunni. Einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá.

Ómar segir að það sé ekki neikvætt fyrir Kópavog að verða að borg. „Það er enginn munur - þetta yrði bara jákvæð athygli sem Kópavogur fengi. Ég er alveg viss um að víða um heim eru til margar borgir sem eru fámennari en Kópavogur," segir Ómar en rúmlega 30 þúsund manns búa í bænum.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogsbæ.Mynd úr safni
Og hann segir það vissulega vonbrigði að tillagan hafi ekki náð í gegn. „Ég er sérstaklega sár út í Ármann félaga minn (Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins), að hann skyldi sitja hjá í þessu því þetta fól einungis í sér athugun en ég erfi það ekkert við hann," segir hann. „En vissulega er ég svekktur, mér finnst þetta bara jákvætt og skemmtilegt."

Af því að tillagan féll á jöfnu mun ekkert verða úr því að Kópavogur verður að borg. „Ég ætla ekki að fara kæra þetta til innanríkisráðuneytisins," segir Ómar kíminn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×