Innlent

Telja ný upplýsingalög skerða rétt almennings

Sigurður Kári Kristjánsson er í minni hluta allsherjarnefndar.
Sigurður Kári Kristjánsson er í minni hluta allsherjarnefndar.
Minni hluti í allsherjarnefnd Alþingis telur að frumvarp til nýrra upplýsingalaga feli í sér skerðingu á upplýsingarétti almennings og leggst eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Minni hlutann skipa Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármansson.

Skoðun sína byggja þeir að einhverju leyti á efni sjálfs frumvarpsins, en hún virðist einnig reist á ummælum aðalhöfundar frumvarpsins í skýrslugjöf fyrir nefndinni.

Trausti Fannar Valsson er formaður starfshóps sem vann að endurskoðun laganna. Hann ku hafa sagt fyrir nefndinni að frumvarpinu væri í raun ætlað að slá skjaldborg um opinbera starfsmenn og ríkisstjórn auk þess sem því væri ætlað að skapa vinnufrið í stjórnsýslunni.

Félagarnir í minni hluta tala um að gömglu upplýsingalögin hafi gefist vel og ekki verið tilefni til endurskoðunar þeirra. Því veki furðu að ráðist var í það ferli.

Minni hlutinn bendir á að ákveðnir kaflar frumvarpsins séu ófullbúnir, undantekningarákvæði frá meginreglu um upplýsingarétt almennings óskýr og vald framkvæmdarvaldsins til að ákvarða gildissvið laganna of umfangsmikið.

Minni hlutinn nefnir og að umsagnir hagsmunaaðila um frumvarpið hafi allar verið neikvæðar.

Minni hlutinn reifar svo einstakar greinar frumvarpsins og gerir athugasemdir:

Gildissvið


Með frumvarpinu er lagt til að gildissvið upplýsingalaga nái yfir alla lögaðila sem eru í 75% eigu hins opinbera. Það er breyting frá núgildandi lögum, sem ná nær aðeins yfir starfsemi stjórnvalda. Meiri hluti allsherjarnefndar Alþingis hefur lagt til að víkka gildissvið laganna enn frekar svo það nái einnig yfir lögaðila sem eru í 51% eigu hins opinbera. Minni hluti allsherjarnefndar telur nauðsynlegt að leggja mat á hverjar afleiðingar þvílíkrar breytingar verði. Þar sem slíkt mat liggur ekki fyrir geldur minni hlutinn varhug við því að ákvæðið sé samþykkt með þeim hætti sem lagt er til.

Í frumvarpinu er lagt til að forsætisráðherra geti veitt ákveðnum lögaðilum undanþágu frá gildissviði laganna. Því ákvæði leggst minni hlutinn eindregið gegn. Hann telur að ef á annað borð eigi að fallast á slíkar undanþáguheimildir að það sé lágmark að ákvörðun um veitingu þeirra sé á hendi hlutlauss úrskurðaraðila.

Gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti


Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að vinnugögn stjórnvalda verði undanþegin upplýsingarétti almennings. Minni hlutinn gerir alvarlegar athugasemdir við þessa skipan mála. Þeir telja ákvæðið veita stjórnsýslunni frjálsar hendur við að skilgreina ákveðin gögn sem vinnugögn og undanþegja þau þar með upplýsingarétti almennings.

Fjárhagsmálefni starfsmanna


Með frumvarpinu er lagt til að almenningur fái upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda í stjórnsýslu og fyrirtækjum í meirihlutaeigu hins opinbera. Fram skal tekið að ákvæðið varðar ekki laun sem kjararáð ákveður, en það eru meðal annars laun ráðherra, alþingismanna og dómara. Minni hlutinn lýsir sig andsnúinn þessum tillögum á þeim grundvelli að óeðlilegt sé að ríkisstarfsmenn þurfi að upplýsa um kjör sín í ríkara mæli en starfsmenn á almennum markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×