Innlent

Máli á hendur Sigurjóni vísað frá

Riftunarmál slitastjórnar Landsbankans gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra, var fellt niður í héraðsdómi í dag, en slitastjórnin hafði krafið Sigurjón um endurgreiðslu á þrjúhundruð milljóna launagreiðslu.

Slitastjórn Landsbankans höfðaði mál á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra, auk tveggja annarra starfsmanna bankans á síðasta ári vegna launa sem bankaráð greiddi mönnunum í aðdraganda falls bankans.

Málið sneri að kaupréttarsamningum og öðrum greiðslum sem slitastjórnin vildi fá rift og krefjast endurgreiðslu á, alls á þriðja hundrað milljóna króna í tilviki Sigurjóns, en málareksturinn hefur staðið yfir frá áramótum.

Málið var fellt niður í héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en dómurinn úrskurðaði að slitastjórnin skyldi greiða Sigurjóni 700 þúsund krónur í málskostnað. Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur.

Páll Benediktsson, talsmaður slitastjórnar Landsbankans, segir að málið hafi verið fellt niður af tæknilegum ástæðum, en niðurstaðan hafi ekki áhrif á framgang málsins og bankinn muni áfram reyna að sækja féð.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, segir hins vegar að málatilbúnaður slitastjórnarinnar hafi verið í skötulíki. Hann segir þó að skjólstæðingur hans hefði fremur kosið að fá efnislega niðurstöðu um hvort hann verði krafinn um endurgreiðslu fjárins, en ekkert er því til fyrirstöðu að slitastjórnin haldi málinu til streitu fyrir dómstólum þar til hún fæst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×