Innlent

Vonbrigði með tillögu um vegbætur

Patreksfjörður.
Patreksfjörður. Mynd úr safni.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsti í dag yfir vonbrigðum með tillögu innanríkisráðherra um vegbætur á sunnanverðum Vestfjörðum. Tillagan lýtur að því að endurnýja veg sem fyrir er á svæðinu og liggur um tvo torfæra hálsa. Íbúar svæðisins vilja að lagður sé nýr vegur um láglendið sem styttir vegalengdir og bætir skilyrði fyrirtækja og einstaklinga á svæðinu.

„Það er beisiklí verið að ganga gegn óskum íbúa á svæðinu og lagt til að byggja það sem þeir vilja alls ekki," segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, en hún telur veginn sem um ræðir agalegan. „Þetta var upphaflega bráðabirgðavegur."

Ákvörðun innanríkisráðherra felur í sér að endurnýja þann veg sem fyrir er og ráðast svo fljótlega í framkvæmdir á göngum undir Hjallaháls. Ásthildur telur ekki gáfulegt að eyða pening í að endurnýja veginn og hefja svo framkvæmdir við göng nokkrum árum seinna. „Það eru milljarðar í tafli. Svona gerir ekki heilvita fólk," bætir hún við.

Ásthildur minnir á að árið 1996 var láglendisvegurinn sem íbúar svæðisins óska sér samþykktur sem bestur kosturinn í stöðunni. Að þeirri samþykkt komu Vegagerðin, Samgönguráðuneyti, Umhverfisráðuneyti og Alþingi Íslendinga. Framkvæmdir við hann drógust svo vegna málaferla.

Nú vekur furðu Vesturbyggðar að innanríkisráðherra komist að annarri niðurstöðu og leggi til að endurnýja fjallaveginn. „Hann telur að með þessu megi hraða framkvæmdum og þetta sé einnig skásti kosturinn með tilliti til umhverfis og náttúru," segir Ásthildur. Bæjarstjórn Vesturbyggðar telur hins vegar að endurnýjun fjallavegarins hafi í för með sér óbætanlegan skaða á náttúru hálsa þeirra er um ræðir.

Bæjarstjórnin skorar á Alþingi að hafna þessari lausn á vegamálum þegar hún verður lögð fyrir þingið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×