„Við erum mjög óánægðir með okkar leik og sérstaklega í síðari hálfleiknum,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, eftir leikinn í kvöld.
Afturelding tapaði í kvöld fyrir Val, 25-20, í annari umferð N1-deild karla í handknattleik, en liðið hefur tapað tveim fyrstu leikjum tímabilsins.
„Þetta var þokkalegt hjá okkur í fyrri hálfleik en síðan misstum við alveg dampinn í þeim síðari. Við erum að elta þá allan síðari hálfleikinn og gerðum allt of mörg mistök í öllum leiknum".
„Við erum alls ekki nægilega ánægðir með þessa byrjun á tímabilinu og verðum heldur betur að vinna í okkar málum“.
